Ögur ehf. var stofnað formlega í mars 2011 af sjö systkinum úr Ögri og móður þeirra sem býr í Ögri. Upphaf fyrirtækisins má rekja til stefnumótunarvinnu sem systkinin unnu árið 2003 þar sem ferðaþjónusta í Ögri var markmiðið. Systkinin ásamt fleirum eftir atvikum munu annast leiðsögn í sumar, öll þekkja þau vel til svæðisins enda alin upp í Ögri.
Stefna fyrirtækisins er að miðla sögu svæðisins til ferðafólks og skapa þannig nýja sýn á umhverfið sem oftast er horft á út um bílrúðuna þegar ekið er framhjá á 90 km. hraða. Við viljum auka möguleika ferðamanna til að njóta á kostnað þess að þjóta. Markmiðið er að gera hið ósýnilega sýnilegt með því að einbeita sér að ákveðnu svæði og gefa því góðan tíma. Í erlendu samhengi er þessi hugmyndafræði oft kölluð ,,Slow Travel“.
Það er mörgu að segja frá þar sem sagan er við hvert fótmál. Ari sýslumaður í Ögri stjórnaði flokki manna í Spánverjavígunum. Sú saga er dapurleg en engu að síður sögð og hluti af sögusviðinu er í Ögri og nágrenni.
Fóstbræðrasaga, og af þeim sökum Gerpla, gerast að hluta í Ögri. Þá er mikil saga af öllu fólkinu sem bjó við hvert fótmál þó lítið sem ekkert sjáist í dag.