Ísafjarðardjúp/Jökulfirðir

Kajakferð og ganga um Ísafjarðardjúp og Jökulfirði
Lagt er upp frá Ögri, róið yfir Ísafjarðardjúp með nauðsynlegum stoppum. Róið meðfram Æðey, jafnvel farið í land og þaðan upp að Snæfjallaströnd þar sem stoppað er á völdum stöðum. Sagt er frá byggðinni sem eitt sinn var og útsýnið dásamað.

 

Val er um að ganga yfir Snæfjallaheiði eða róa til Grunnavíkur. Ef valið er að ganga yfir Snæfjallaheiði bætist við kostnaður vegna báts sem ferjar kajakana til Grunnavíkur. Kostnaður aukalega er 10.000 kr. pr. þátttakanda.

Eftir næturstopp við Berjadalsá á Snæfjallaströnd skellir hópurinn sér í gönguskóna því framundan er ganga yfir Snæfjallaheiði yfir í Grunnavík. Þessa leið fór Sumarliði póstur á sínum tíma og er saga hans sögð á leiðinni.


Næsti næturstaður er í Grunnavík, tækifæri gefst til að ganga um víkina og skoða sig um.


Eftir hvíld er róið inn með Staðarhlíð, meðfram Gathamri/Ófæru sé veður gott og lítil alda. Farið er í land þar sem hentar á leiðinni inn í Leirufjörð og farið yfir sögu útgerðar og byggðar. Í góðu skyggni ber jökulinn við himin yfir Leirufirðinum.


Næturstaður er á Flæðareyri eða við Dynjanda í Leirufirði. Eftir þá næturhvíld er róið inn í Hrafnsfjörð að Hrafnsfjarðareyri þar sem leiði Fjalla-Eyvindar er sagt vera og hefur verið merkt sérstaklega. Róið þaðan í meðfram fjörðunum á leið okkar í Hesteyrarfjörð.

 

Næturstaður er á Hesteyri eftir langa dagleið. Eftir langa og góða hvíld er gengið um á Hesteyri og gamla þorpið skoðað. Gengið eða róið inn að gömlu hvalstöðinni á Heklueyri og það sem eftir er af húsunum skoðað. Við gefum okkur tíma til að ganga upp á Hesteyrarbrúnir til að virða fyrir okkur útsýnið.


Seinnipart dagsins eða um kvöldið er náð í hópinn á báti og farið með hann til baka í Ögur.
 

Í þessari ferð er lögð áhersla á blöndu af kajakferð og gönguferð þar sem leiðsögumaður segir sögu svæðisins í hvert sinn sem tækfæri gefst. Lögð er áhersla á holla og góða hreyfingu en um leið að stoppa sem víðast og njóta náttúrunnar, dýralífsins og sögunnar. Veður getur breytt áætlunum og áfangastöðum í ferðinni.

 

Áætlaður tími er 5 dagar og viðmiðunargjald 200.000 kr. á mann.

 

Innifalið er: Kajakar og allur búnaður vegna þeirra, tjöld, matur og bátsferð til baka. Ef um hópa er að ræða eru gerð tilboð.

Skilmálar
Við biðjum viðskiptavini okkar að sýna þolinmæði, sveigjanleika og skilning ef leiðsögumaður þarf að breyta áætlun sökum veðurs eða annara ástæðna.

Tímasetningar sem gefnar eru upp við pöntun ferðar eru áætlaðar og má gera ráð fyrir því að þær geti breyst. Miðað er við að viðskiptavinir mæti hálftíma fyrir áætlaða brottför þar sem undirbúningur tekur alltaf einhvern tíma.

Gerð er krafa um að þátttakendur fari eftir fyrirmælum leiðsögumanns í ferðum og sýni samferðafólki sínu tillitssemi. Ef sú regla er brotin þá er leyfilegt að hamla viðkomandi þátttöku eða vísa honum úr ferðinni án endurgreiðslu.

Með því að bóka ferð á vefsíðu Ögur Travel þá samþykkir þú skilmála þessa.

Þú getur sótt skjal með öllum skilmálum með því að smella hérna.



Ögur ehf. • Ögri Ísafjarðardjúpi • Netfang: ogur@ogurtravel.com • Sími: 857-1840

VEFSMÍÐI: STYX EHF. KNÚIÐ AF: WebSmith